Frá árinu 1940 og fram til 1970 var verð á tunnu af hráolíu á bilinu 2 – 3 USD. Verð breyttust lítið þótt sveiflur kæmu fram öðru hvoru þegar heimsmálin voru í óvissu. Markaðurinn á þessum tíma var í ástandi sem kallað er „oligapoly“ þar sem hinar sjö systur svokölluðu (Chevron, Esso, Shell, Texaco, BP, Mobil og Gulf) réðu alfarið verðlagningu á olíuvörum í heiminum. Á þessum tíma kostaði að meðaltali ca. 40 cent að ná upp tunnu af hráolíu og með söluverð í 2.50 USD þá var hagnaður risanna gríðarlegur. Til samanburðar þá er talið að meðalverð á olíu uppúr sjó í dag sé um 35.00 USD pr. tunnu.
Hermann Guðmundsson
Hin risastóru olíufélög gerðu langtímasamninga við þau lönd sem réðu yfir olíuríkum svæðum. Olíufélögin lögðu fram geysilegt fé til fjárfestinga í borun og búnaði til að hægt væri að ná olíunni upp og síðan koma henni á markað. Afgjaldið til olíuframleiðsluríkjanna var lágt og öll virðiskeðjan var á hendi risanna. Á þessum árum var ekki hægt að kaupa olíu á markaði, hún fékkst aðeins keypt út úr olíuhreinsistöðvum sem allar voru í eigu risanna.
Hvernig risarnir misstu tökin á markaðnum á stuttum tíma er saga sem er ævintýri líkust og efni í góða kvikmynd.
Fram á völlinn kemur ungur maður að nafni Marc Rich. Hann var skírður Marcell David Reich en eftir að hann sem ungur drengur ásamt foreldrum sínum komst við illan leik til Bandaríkjanna 1941 tók fjölskyldan upp ný nöfn. Fjölskyldan hafði sloppið naumlega undan Þjóðverjum sem réðust inní Antwerpen, fluttu og drápu síðar tugi þúsunda gyðinga sem ekki voru jafn lánsamir að sleppa.
Marc Rich hefur verið kallaður „King of Oil“ í heimi viðskiptanna síðan snemma á áttunda áratugnum. Hann braut á bak aftur staðnað viðskiptakerfi og bjó til heimsmarkað fyrir olíu með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.
Marc hætti í háskóla eftir einn vetur og réð sig til vinnu í fagi sem átti eftir að verða hans ævistarf og gera hann að einum ríkasta manni heims. Hann steig sitt fyrsta skref 1954 í viðskiptalífinu sem lærlingur hjá fyrirtækinu Phillip Brothers í New York.
Hans fyrstu skref í hrávöruviðskiptum voru þegar hann eftir rannsóknir komst á þá skoðun að kvikasilfur væri stórlega undirverðlagt og að eftirspurn myndi aukast verulega við framleiðslu á talstöðvum og fjarskiptabúnaði sem notuð eru í hernaði. Hann fór víða um heiminn og gerði samninga um kaup á kvikasilfri til nokkura ára og á 2 árum hækkaði verðið yfir 100% og Marc hafði skapað sinn fyrsta hagnað fyrir vinnuveitanda sinn og um leið jókst hróður hans.
Marc starfaði í 18 ár hjá Phillip Brothers sem á þeim tíma varð langstærsta hrávörumiðlun heimsins. Þar var höndlað með alla málma og efnavörur auk fleiri hráefna. Marc var kominn í stjórnunarstöðu sem forstjóri starfseminnar á Spáni og undir hann heyrði Afríka og Mið – Austurlönd auk fleiri landa.
Það má segja að þegar Nixon Bandaríkjaforseti afnám notkun gullfótsins sem undirstöðu fyrir Usd í ágúst 1971 hafi tólfunum verið kastað. Dollarinn lækkaði í verði um nær 40% á stuttum tíma sem þýddi að tekjur olíuframleiðslulandanna drógust saman að sama skapi.
Á næstu 2 árum þjóðnýttu margar þjóðir allar olíulindir og tæki sem voru í eigu risanna. Alsír og Líbería riðu á vaðið og fljótlega fylgdu á eftir stóru olíulöndin Írak, Saudi Arabía, Abu Dabi og síðast steig Keisarinn í Íran sama skref 1973. Heimurinn hafði breyst á fáum mánuðum og allt í einu þá voru það risarnir sem þurftu á framleiðslulöndunum að halda en ekki öfugt.
Marc Rich hafi áttað sig fyrstur á því sem var að fara að gerast og eins og forðum þá ákvað hann að stíga skrefið til fulls. Hann þekkti vel til í Íran eftir margra ára viðskipti þar og á fáum dögum þá tókst honum að kaupa hráolíu af Írönum fyrir 37 milljónir Usd sem var veruleg upphæð í þá daga. Hann hafði fest verðið í 2 ár og greitt 5 Usd fyrir tunnuna sem á þeim tíma seldist á 3 Usd til hreinsistöðva.
Þegar höfuðstöðvarnar í New York fengu fréttirnar þá varð allt vitlaust og Marc var neyddur til að selja samninginn þar sem yfirstjórninni fannst of mikil áhætta fólgin í verðinu. Samningurinn var seldur og þegar 2 ár voru liðin hafði kaupandinn grætt 60 milljónir Usd. Þessi viðbrögð yfirstjórnarinnar urðu til þess að Marc Rich ákvað að hætta eftir 18 ár hjá stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði til að hefja eigin rekstur ásamt nokkrum nánum samstarfsmönnum.
Félagið var stofnað í Zug í Sviss og bar heitið Marc Rich AG.
Það sem Marc sá á undan öðrum var að olían var að verða hrávara á heimsmarkaði eins og málmar og fleiri vörur og hann vissi að þetta yrði stærsta vörulínan í heimi hrávöru. Hann ætlaði að verða fremstur á sviðinu þegar boltinn færi að rúlla. Olíuframleiðslulöndin höfðu ekkert sölukerfi, enga fjármögnun og kunnu ekki til verka í flutningum, geymslu og samningagerð. Marc Rich gat séð um það allt gegn hæfilegri þóknun.
Eftir 20 ára rekstur þá var Marc Rich AG fyrirtækið langstærsta hrávörumiðlun heimsins og árið 1990 var veltan orðin yfir 30 milljarðar Usd á ári og félagið seldi meiri olíu á degi hverjum en Kuwait sem er eitt helsta olíuframleiðsluland heimsins. Skrifstofur félagsins voru þá í 128 löndum. Marc birtist á Forbes listanum sem milljarðamæringur sem hafði byrjað með tvær hendur tómar en með mikilli vinnu og innsæi náð að byggja upp stórveldi sem hann síðan seldi. Eftir söluna þá var nafninu breytt í Glencore og það er enn í dag eitt stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði.
Marc Rich er sannkallaður heimsborgari og það er varla til sá staður á jörðinni þar sem hann hefur ekki gert viðskipti. Hann varð náinn vinur fjölmargra þjóðarleiðtoga og það var ekkert land sem hann vildi ekki eiga viðskipti við með hrávörur. Hann var brautryðjandi í því að eiga viðskipti við minna þróuð hagkerfi í Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. Hann stóð alltaf við samninga og aldrei þurfti að efast um orð hans. Hans sýn var ávallt á langtíma viðskiptasambönd.
Eitt sinn þegar ríkisstjórn Jamaica var í prógrammi hjá IMF vegna erfiðar skuldstöðu þá var stuttur tími í endurskoðun áætlunarinnar og ríkisstjórnin átti ekki þann gjaldeyri sem henni var skylt að eiga samkvæmt prógramminu. Ef Jamaica stæði ekki við sinn hluta þá fengi landið ekki áframhaldandi fjárhagsaðstoð. Góð ráð voru dýr og landið gat hvergi fengið lánað og samkvæmt prógramminu þá mátti það ekki efla gjaldeyrissjóðinn með láni. Það var leitað til Marc Rich um hugmyndir að lausn.
Hann bauðst til að kaupa súrál úr námum ríkisins og greiða 2 ár út í hönd samtals 45 milljónir Usd. Þetta dugði og endurskoðun fékkst, síðar hjálpaði hann sömu ríkisstjórn að kaupa álver sem að Alcoa ætlaði að loka á eyjunni og það varð mikið heillaskref þar sem álverð hækkaði mikið og góð afkoma álversins styrkti efnahag eyjunnar.
Með því að reka fyrirtækið undir lögsögu Sviss þá þurfti hann ekki að lúta boðum og bönnum Bandaríkjamanna sem útdeildu viðskiptabönnum hist og her í tilraunum sínum til að hrekja stjórnvöld frá völdum. Á endanum sá Rudy Guiliani þá verandi saksóknari í New York ástæðu til ákæra Marc Rich fyrir skattaundanskot dótturfélags og fyrir að hafa átt viðskipti við klerkastjórnina í Íran í trássi við bann Bandaríkjanna.
Krafðist saksóknarinn knái 325 ára fangelsi sem var í engu samræmi við mál af þessu tagi.
Marc Rich flúði land og settist að í Sviss þar sem hann býr enn, hann afsalaði sér bandarískum ríkisborgararétti og tók upp spánskt ríkisfang og síðar ísraelskt einnig.
Það er athyglisvert að þrátt fyrir að viðskiptin við Írani væru við svissneska félagið Marc Rich AG og fullkomlega lögleg viðskipti samkvæmt svissneskum lögum þá töldu Bandaríkjamenn sig ekki þurfa að taka tillit til þeirra laga. Í sautján ár sátu útsendarar Bandaríkjastjórnar um Marc Rich og margreyndu að egna fyrir hann gildrur svo að þeir gætu rænt honum og flutt nauðugan í dómssal.
Meðal annars skipulögðu þeir slíkt mannrán innan landamæra Sviss sem varð til þess að samskipti ríkjanna urðu æði stirð til margra ára. Svissnesku stjórnvöld kröfðust þess að ef Marc Rich AG hefði brotið alþjóðalög þá yrði réttað í málinu í Sviss en það vildu bandarísk stjórnvöld ekki. Þau vildu eingöngu horfa til eigin laga og eigin hagsmuna.
Harðsnúið lið fyrrum Mossad manna gættu Marc Rich nótt og dag enda sá hann um að Ísrael fengu olíu afgreidda þrátt fyrir að flest framleiðslulöndin væru með landið á bannlista.
Eitt mesta fjölmiðlafár allra tíma hófst í janúar 2001 þegar síðasta embættisverk Bill Clinton var að náða Marc Rich og viðskiptafélaga hans til áratuga, Pincus Green. Gríðarlegt fjölmiðlafár fór í gang þar sem því var haldið fram að fyrrum eiginkona Marc hefði í gegnum framlög í kosningasjóði Demókrata og Bills Clinton sjálfs keypt náðun.
Rannsóknarnefnd var skipuð af þinginu og miklum tíma var varið í að deila um málið. Það er á seinni árum sem það kom fram að fjöldi þjóðarleiðtoga skoraði á Clinton að náða Marc Rich á þeim forsendum að hann væri í áratugi búinn að vera ómetanlegur bandamaður við að leysa erfið milliríkjamál m.a. á milli Egypta og Ísraela og síðar Palestínumanna og Ísrael. Þar að auki hafði hann ráðstafað gríðarlegum fjármunum til mannúðarmála í þeim löndum þar sem hann stundaði viðskipti.
Þegar fram voru komin gögn sem sýndu frammá að öll rök saksóknara New York borgar voru meira og minna á sandi byggð og tóku ekki tillit til lögsögu annara ríkja ákvað Bill Clinton að náða Marc eftir 18 ára útlegð og einelti bandarískra stjórnvalda.
Kóngurinn var aftur frjáls en á tímabilinu missti hann dóttur sína 27 ára gamla úr krabbameini og honum var meinað að koma til Bandaríkjanna til að vera við dánarbeð hennar og útför.
Nú lifir Marc Rich rólegu lífi við Luzern vatn og nýtur efri áranna. Hann segist aldrei ætla að koma til Bandaríkjanna framar þrátt fyrir náðunina því að hann treysti ekki slíkum stjórnvöldum.
Sögu Marc Rich má lesa í bókinni King of Oil sem skrifuð er af Daniel Ammann og útgefin af St. Martin´s Press.
source: http://www.pressan.is/pressupennar/LesaHermann/aevintyralegt-lif-i-oliuheimi